Risarvaxnir íþróttamenn

Ég skellti mér á handboltalandsleik í gær...Ísland vs. Tékkland. Það er gríðarlega langt síðan ég skellti mér síðast á handboltaleik. Sá leikur var nú reyndar ekkert slor. ÍR-ÍBV fyrir u.þ.b. 3 árum. Spennan var gríðarleg og þótti eyjamönnum dómgæslan svo slæm í þeim leik að þeir ætluðu sér að ganga af velli. Áhorfendur voru álíka æstir og leikmenn og þar fór fremstur í flokki formaður handknattleiksdeildar ÍBV. Ég man nú ekki hvað hann heitir en það er gaurinn sem var að reyna að fá þýsku liðin til að spila í Egilshöllinni um daginn. Gekk reyndar ekki eftir hjá kallgreyinu. En hvað um það. Leikurinn í gær var þessi líka fína skemmtun. Ég tók tvo litla gutta með mér og áttu þeir ekki orð yfir hvað blessaðir handboltamennirnir voru stórir. Ég, sem næ 190 cm, var eins og peð við hliðina á þessum risum. Leikurinn var í járnum framan af en eftir að Hannes Jón Jónsson, fyrrverandi ÍR-ingur, kom inná fór að skilja á milli liðanna. Drengurinn var gríðarlega sprækur og réðu risavaxnir Tékkarnir ekkert við hraða hans. Lokatölur 33-28 okkar mönnum í vil. Það var ekki blessaður leikurinn sem heillaði mig mest í gær heldur var það góður stemmari í höllinni eins og vanalega á handboltaleikjum. Alveg þess virði að kíkja á fleiri leiki til þess eins að upplifa hana.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband