Færsluflokkur: Bloggar

Þú verður halda í við þig maður!

Afi minn átti 92 ára afmæli síðastliðinn föstudag. Sá gamli er býsna hress þrátt fyrir háan aldur og lætur engan bilbug á sér finna. Eins og sönnu barnabarni sæmir ákvað ég að kaupa gjöf handa þeim gamla. Ég lenti hins vegar í vandræðum. Hvað á ég svo sem að gefa gæja sem er 92 ára gamall og á nóg af öllu. Eftir að hafa ráðfært mig við valinkunna einstaklinga ákvað ég að kaupa útvarp( eða viðtæki eins og sá gamli kýs að kalla það ). Þegar ég færði honum viðtækið góða varð kauði svona líka ánægður með sonarsoninn að ég átti í mestu vandræðum með að forðast faðmlag. Ég slapp reyndar ekki. En þrátt fyrir að hafa verið ánægður með gjöfina mína gladdi hann fátt meira en það sem vinkona hans gaf honum...baðvigt. Svo glaður varð hann með vigtina að enginn maður slapp úr veislunni fyrr en búið væri að vigta hann. Sá gamli var fyrstur - 84 kg. Ekki mikið á þeim bænum enda oft verið þyngri. Síðan steig hver fjölskyldumeðlimur á vigtina við mikla kátínu þess gamla. Síðastur til að pína greyið gjöfina var svo pabbi gamli...96 KÍLÓ!!! Hrópaði afi upp yfir sig. Þar sem flestir afmælisgestir voru í kringum 80 kílóin vakti þetta nokkra undrun hjá Aldursforseta fjölskyldunnar sem hóf strax að gefa syni sínum heilsusamlega ráð. Auðvitað hlustaði pabbi á þann gamla en þegar hann gerði sig líklegan til að fá sér sneið af afmæliskökunni hrópaði sá gamli: 

NEI, nú er nóg komið af kökum vinur...þú verður að halda í við þig annars endar þetta með ósköpum!

Af þessu má draga tvöfaldan lærdóm.

  1. Það er sama hversu gamlir foreldrar manns eru...þeir hætta aldrei að skipta sér af manni.
  2. Afi er flottur!

Ég hef ekki lyst.

Sem ungur sveinn mátti ég oft sitja undir predikunum um mikilvægi vinnunnar. Það voru foreldrar mínir sem áttu til að bregða sér í hempuna og messa. Eins og góðum syni sæmir sat ég undir þessu og kinkaði kolli, enda dreg ég ekkert úr gildi vinnu. Ég seldi Skagablaðið, bar út Moggann og DV lengi vel, vann í bakaríinu hjá brósa og svona mætti lengi telja. Á ölllum þessum stöðum lenti ég í skemmtilegum atvikum sem aldrei gleymast og myndi það sennilega æra óstöðugan að telja þau öll upp hér og nú. Á Hróa Hetti lenti ég hins vegar í atviki sem fær mig alltaf til að brosa. Á einni vaktinni var það mitt hlutverk að svara í símann og taka við pöntunum. Framan af kvöldi gekk þetta vel og pantanirnar hlóðust upp. Þá kom að skemmtilegu símtali. Inn hringdi eldri maður sem greinilega var ekki vanur að panta sér pizzu. Hann fór með mig marga hringi og aftur til baka án þess að komast að niðurstöðu. Eftir dúk og disk náði ég þó að selja honum eina af fjölmörgum hugmyndum sem ég hafði komið með á meðan símtalinu stóð. Vorum við félagarnir orðnir nokkuð sáttir þegar ég spyr eins og kjáni hvað hann viljir að pizzan sé skorin í margar sneiðar og segi honum að venjan sé að skera hana í átta sneiðar. Þá segir okkar maður:

"Æ, góði skerðu hana bara í 6 sneiðar, ég held ég hafi ekki lyst á 8."


Sögur...

Ég hef alltaf haft gríðarlega gaman af sögum. Meira þó ef þær eru sannar. Kunningi minn nokkur að norðan hefur sagt mér ófáar skemmtilegar sögur af nábúum sínum og oftar en ekki skelli ég uppúr, enda skemmtilegur sögumaður þessi kunningi minn. Þá er ég svo heppinn að eiga samstarfsmenn sem eru hafsjór af fróðleik, héðan og þaðan, sem þeir vilja ólmir deila með öðrum. Eins og allir vita geta sögur verið afar mismunandi. Sumar eru langar, aðrar stuttar, sumar skemmtilegar aðrar ekki eins skemmtilegar. Að gamni mínu læt ég þó eina fylgja að þessu sinni, enda ein af mínum uppáhalds.

Ungur drengur fór eitt sinn sem oftar í fótbolta með félögum sínum eftir að skóla lauk. Að kappleik loknum fóru félagarnir að metast um það hver næði upp í slánna á markinu og hver ekki. Þegar kom að þessum unga dreng teygði hann sig eins hátt og hann mögulega gat, fór meira að segja vel uppá tærnar til að lengja sig. En allt kom fyrir ekki. Sláin var enn um 5 cm frá fingurgómum hans. Dó þá drengur ekki ráðalaus...ó nei. Sneri hann sér á hvolf og reyndi allt hvað hann gat til að standa á höndum. Furðulostnir félagar hans spurðu þá hvurn fjandann hann væri eiginlega að gera. Að bragði svaraði okkar maður:

"Ég er viss um að ég næ upp í slá ef ég stend á höndum, ég er svo djöfulli lappalangur"


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband