Færsluflokkur: Bloggar

Náðu í þetta sjálfur!

Ég kíkti í kaffi til Kallsins um daginn. Fyrst og fremst var ég að taka stöðuna á baðherbergismálunum en ákvað svo að biðja um smá kaffi. "Ekki málið" sagði kallinn og við svo komið gekk ég út af baðherberginu og inn í eldhús. Ég sest niður og fletti mogganum á meðan sá gamli var eitthvað að bardúsa við eldhússkápana. Eitthvað fylgdist ég lítið með aðgerðum hans því þegar ég lít upp er hann sestur við hlið mér og byrjaður að gúffa í sig mjólk og kexi. Forviða spyr ég hvar hann hafi lagt kaffibollann minn. "Þarna" sagði hann og benti á Nýju Philips Senso kaffivélina sína. " Reddaður þér!".  Yfir mig hissa stóð ég upp og sansaði mér kaffi. Málið er ekki að þetta hafi verið mikið vandamál fyrir mig, þvert á móti. Ég var bara svo hissa því í hvert einasta skipti sem hann sækir mig heim er stjanað í kringum ra*'/(tið á honum - sem öðrum gestum. Eins og mér einum er lagið hellti ég mér yfir hann...hvers konar gestrisni þetta væri eiginlega? Minn maður fussaði nú bara og hélt áfram að dæla í sig bakkelsinu. Reyndar held ég að skammir mínar hafi snert hann örlítið því hann var frekar aumingjalegur þegar hann kom svo í kaffi til mín daginn eftir, sagðist alveg getað reddað sér. En eitt má hann vita...Ef ekki verður bót á "gestrisni" hans í náinni framtíð, þá getur hann gleymt því að ég kíki í kaffi til hans aftur- Eflaust lætur hann eins og það sé alveg frábært en ég veit að hann getur ekki án mín verið Wink


Kóngsins ræða.

Ég kíkti á sjávarréttakvöld ÍA síðastliðinn föstudag. Var þar margt góðra manna enda gríðarlega vinnsæl skemmtun meðal stuðingsmanna stórveldisins. Þar ber helst að nefna æskulýðsfrömuðinn Einar Skúla, Skagaframmarann Reyni Leós, fyrrverandi fyrirliða Skagamanna - Guzza Tryggva. Gaman var að sjá að Addi Gull var mættur þarna, enn flottari fyrir vikið.

Eins og vanalega heldur kóngurinn tölu á kvöldi sem þessu. Það er alltaf gaman að hlusta á Mr. G. Mér fannst sérstaklega athyglsivert hvernig hann talaði niður allar væntingar til liðsins, sagðist meira að segja þakka fyrir að einungis eitt lið fellur í haust. Reyndar held ég að það hafa meira verið í gamni en alvöru. Eftir á að hyggja held ég að þetta hafi verið ágætis útspil hjá Gauja. Við Skagamenn erum þekktir fyrir að gera miklar væntinga til okkar liðs og oft á tíðum óraunhæfar. KR, FH og Valur hafa bætt gríðarlega við lið sín í vetur þrátt fyrir að hafa verið sterkustu liðin síðastliðið sumar. Á meðan hefur G-arinn verið að gefa ungum skagamönnum tækifæri og lítið leitað út fyrir bæjarmörkin. Að vísu stefnir í komu allt að þriggja erlendra leikmanna en það verður gaman að sjá hvað verður. Með þetta í huga hvet ég alla aðdáendur til að styðja liðið í þeirri uppbyggingarvinnu sem er í gangi og vona svo það besta - Kannski náum við 5. sætinu.


Ég ætla að verða glæpamaður.

Helmuth félagi minn spurði mig um daginn hvers vegna menn verða glæpamenn. Auðvitað er engin en ástæða fyrir því og það myndi sennilega æra óstöðugan að ætla að finna lausn á því hér. En síðan hann spurði mig að þessu hef ég oft spáð í þetta. Afhverju að meiða aðra? Afhverju að eyðileggja? Afhverju að misnota? Afhverju að stela? Af hverju að ...? Það hlýtur að vera eitthvað svakalega mikið að hjá fólki sem gerir hluti sem þessa oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En hvað er að? Er þetta í genunum? Er þetta uppeldið? Er þetta einhverskonar heilabilun? Ég skal ekki segja. Eitt er þó víst að karlmenn eru mun duglegri við þessa iðju en konur. Hvers vegna skyldi það vera? Eru við svona þrælgallaðir? Eru við svona illa innrættir? Ætli þetta séu okkar blæðingar?

Ég á mjög erfitt með að átta mig á þessu og því meira sem ég pæli í þessu, því ruglaðari verð ég

...ég ætla bara að vona að ég klikkist ekki og gerist glæpamaður.


Það er ekki gaman að deyja!

Sem kennari lendir maður oft í ótrúlegum aðstæðum. Þá er alveg með ólíkindum hvað nemendur geta látið út úr sér og oft hafa þeir náð að kitla hláturtaugar mínar all svakalega.

Til marks um þetta þá var ég einu sinni spurður hvort ég ætti fjarskyldan bróður á Egilsstöðum.

Einn nemandi kom sigri hrósandi út úr samræmdu prófi í íslensku. kennari hans tók á móti honum fyrir utan stofuna og spurði hvernig hefði gengið. Það stóð ekki á svörum: "Meiriháttar vel. Ég gerði allt sem ég kunnti".

En eitt það skemmtilegasta sem ég hef heyrt kom frá samkennara mínum. Að öllu jöfnu kennir hann í unglingadeild skólans en dag einn þurfti hann að leysa af í 1.bekk vegna manneklu. Þessi ágæti kennari er kominn nokkuð yfir sextugt og nokkuð afalegur, ef svo má segja. Þegar hann hefur lokið við að lesa upp réttir stúlka einn um arminn, tilbúin með spurningu. 

Stúlkan: Átt þú mömmu?

Kennari: Nei, hún er nú dáin blessunin.

Stúlkan: Æ, það er ekki gaman að deyja.

Kennari: Nei vinan, það er nú örugglega ekki gaman.

Stúlkan: Þú ferð bráðum að deyja.

Þessum samstarfsmanni mínum varð svo um að hann vissi varla í hvorn fótinn hann átti að stíga en stúlkan hélt áfram.

Stúlkan: Þú ert nefnilega svo gamall.

Stendur þá einn drengur í bekknum upp með nestisboxið sistt og segir: Já og krumpaður, eins og þessi kleina hér.

Vitandi þetta held ég að maður hugsi sig tvisvar um áður en maður tekur nokkurn tíma forföll í 1.bekk. 

 


Home again

Gott að gera kominn heim en það var samt algerlega frábært þarna úti í Crewe. Fólk tók vel á móti okkur og viðmót englendinga til algerar fyrirmyndar. Hvar sem við komum var fólk tilbúið að gera hvað sem er fyrir okkur. Þá var leikur Man. Utd. og Roma gargandi snilld, ekki á hverjum degi sem maður fær svona leik. Ekki skemmdi það fyrir okkur að sitja alveg við völlinn - nánar tiltekið þar sem leikmenn koma út á hann. Semsagt frábær ferð að baki og vonandi verða þær fleiri í þessum dúr.

 Annars fóru við Helmuth að velta einkennilegum hlut fyrir okkur í ferðinni - Textanum við Laddalagið "Ég er afi minn". Tær snilld og með ólíkindum hvað manninum dettur í hug. Að gamni læt ég textann fylgja svo menn geti áttað sig á vitleysunni. 

Já þú trúir ei glatt, en ég segi það satt...að ég er afi minn

Fyrir ótal mörgum árum, þegar ég var tuttugu og eins

var ég giftur ungri ekkju sem var kölluð Lilla Sveins. 

Hún átti unga dóttur sem var alls ekki svo ljót

og pabbi minn varð ástfanginn og giftist þeirri snót.

Þetta var til þess að nú var pabbi tengdasonur minn

og dóttir mín var kona hans og var því móðir mín.

Þetta var nú orðið nokkuð flókið sem er von

og ekki var það betra er ég eignaðist svo son.

Því litli snáðinn var nú orðinn mágur pabba míns

og var því orðinn nokkurs konar frændi pabba síns.

En þar sem hann var frændi minn þá var hann líka bróðir minn

og frænka hans sem var dóttir mín var orðin tengdarmóðir mín.

Svo eignuðust þau son einn daginn, pabbi og dóttir mín,

sem gerir það að verkum að ég er afi bróður míns

og konan mín er orðin núna móðurmóðir mín

sem leiðir það af sér að hún er orðin amma mín.

Ef konan mín er amma mín þá er ég barnabarn

og ég get ekkert gert af því að ég sé eigingjarn

en ég er sennilega alveg einstakt tilfelli.

Að vera giftur ömmu sinni er merki um elli.

Ég er afi minn. 


Lært af Crewe-inu!

Nú um páskana ætla ég að skella mér til Englands með félaga mínum, honum Helmuth. Ætlunin er að fylgjast með þjálfun enska 2.deildarliðsins Crewe Alexandra. Eftir því sem ég best veit munum við fá að fylgjast með öllum flokkum félagsins, allt frá litlu púkunum upp í atvinnumennina. Það verður spennandi að sjá muninn á þessu enska 2.deildarfélagi og okkar ástkæra Skagaliði. Þetta lið er um miðja 2.deild en samt eru þeir með leikvang sem tekur rúmlega 10 þúsund manns sem er svipað og þjóðarleikvangur okkar Íslendinga án stæða. Stjóri félagsins er maður að nafni Dario Gradi og hefur hann ráðið ríkjum hjá Crewe síðan 1983 sem gerir hann að lengst-starfandi stjóra í sögu enskrar knattspyrnu. Nokkrir frægir leikmenn hafa komið frá þessum annars litla kúbbi eins og t.d. David Platt(Arsenal), Rob Jones(Liverpool), Robbie Savage(Blackburn), Neil Lennon(Celtic), Danny Murphy(Tottenham), Seth Johnson(Derby) og Dean Ashton(West Ham).

Old Trafford

Annars er planið að fljúga á London snemma á föstudagsmorgun og taka lestina norður til Crewe sem er staðsett ekki langt frá Manchester. Við verðum hjá félaginu í viku en rúsínan í pylsuendanum er síðari leikur Man. Utd og Roma sem háður verður á Gömlu Tröð næsta þriðjudag. Ég mun auðvitað fylgjast vel með leiknum í kvöld til að byggja upp smá spennu fyrir seinni leikinn.

Áætluð heimkoma er svo föstudaginn 13.apríl...sjitt! Ef tækifæri gefst til þá mun ég henda inn færlsu þar sem farið verður yfir gang mála.

Gleðilega páska! 


Betra seint en aldrei

Það hefur væntanlega ekki farið framhjá mörgun að í gær var 1.apríl. Eins og vanalega reyna fjölmiðlar landsins allt hvað þeir geta til að láta trúgjarna Íslendinga hlaupa í tilefni dagsins. Útvarpið greindi frá fjölda trjáa úr Heiðmörk sem hægt væri að nálgast fyrir lítið við áhaldahúsi Kópavogs, sudurland.is reyndi að fá fólk til að koma á uppboð úr innbúi Byrgisins og þá reyndu Skessuhornsmenn að plata fólk upp að bænum Munaðarnesi í Borgarfirði til að sjá hval sem synt hefði upp Norðurá og drepist.

Þeir sem mig þekkja vita að ég hef óskaplega gaman af því að stríða...þoli svo ekki þegar mér er strítt...en hvað um það. Klukkan 23:30 í gær hafði ég enn ekki látið nokkurn mann hlaupa og tíminn að renna út. Þar sem ég lá uppi í rúmi og gerði mig líklegan til blundar var mér skyndilega hugsað til föður míns. AUÐVITAÐ! hugsaði ég...ég hringi í kallinn! Eins og vanalega svaraði móðir náttúra í símann enda annálaður nátthrafn. Ég bað um þann gamla og sagði mútta að hann væri nýskriðinn upp í rúm. Þá hlakkaði nú enn meira í mér...ég bað um að fá að tala við hann. Þegar faðir vor tók við tólinu var greinilegt að hann var eitthvað farinn að dotta. Hann ruglaði eitthvað í fyrstu en náði svo áttum. Ég hóf samtalið á að spyrja um reiðtúr sem við ætlum okkur að fara í á fimmtudaginn. Eftir dágóða stund þykist ég vera búinn að fá allar upplýsingar og geri mig líklegan til að kveðja, þá byrjar það. 

Ég: "Heyrðu pabbi, getur verið að ég hafi gleymt vinnulyklunum þarna hjá ykkur í gær?"

Kallinn: "Hvar gætu þeir verið?" 

Ég: "Þeir eru sennilega niðri hjá tölvunni"

...ég heyri að kallinn staulast framúr og niður stigann...og ég hreinlega að missa það.

Kallinn: "Nei, þeir eru ekki hér...Rósa! hefur þú séð vinnulyklana hans Lúlla?"

...sú gamal kominn með í hrekkinn algerlega óvænt.

Ég: "Þeir gætu líka verið inni í eldhúsi eða niðri í kjallara"

Kallinn: "Nei, þeir eru ekki í eldhúsinu"

...Nú gefst ég upp...

Ég: "1.APRÍL - BWAHAHAHAHAHA"

Kallinn: "Helvítis asninn þinn...ég var kominn upp í rúm. Ég mun sko hefna mín, það máttu bóka"

------- 

Ég get svarið að það er skemmtilegast í heimi að hrekkja þann gamla...yndislegt að heyra og sjá viðbröð hans við hrekkjunum og enn meira gaman þegar hann hefnir sín. 


Hin fullkomna lausn!

Ég rakst nýverið á myndband sem sýnir sennilega mestu uppgötvun fyrr og síðar. Að vísu er hluturinn ekki til en það er ótækt að tala um hversu heitt ég óska þess. Kíkið á myndbandið.


Jólagjöfin í ár...eða hvað? 


Hvað veistu?

Ég hef verið að fylgjast með Gettu betur undanfarið og haft mjög gaman af. Í hvert einasta skipti tek ég virkan þátt úr stofunni heima, dyggilega studdur af konu minni sem gefur áhorfendum í sjónvarpssal lítið eftir í hávaðanum. Ég skemmti mér konunglega yfir viðureignum Versló og MR annars vegar og MH og MK hins vegar. Öll liðin fjögur eru gríðarlega vel mönnuð og greinilega vel þjálfuð. Allir vita hvað MR-ingar leggja mikið uppúr þessum keppnum en það verður gaman að sjá hvort MK-ingar geti velgt þeim undir uggum. Það vona ég.

En svona til að hita upp fyrir úrslitaleikinn, næsta föstudag, langar mig að koma nokkrar spurningar og athuga hvort þið, lesendur góðir, séuð álíka miklir viskubrunnar og piltarnir úr MR og MK.

Til að gera þetta skemmtilegt þá er bannað að fletta þessu upp á netinu.

  1. Hvaða ár og hvar var bítillinn John Lennon myrtur?
  2. Frá hvaða landi er formúlu 1 ökumaðurinn Felipe Massa?
  3. Hvað heitir indverska borgin Bombey eftir að nafni hennar var breytt?
  4. Hver er jafnan fyrir flatarmál hrings?
  5. Hverjir voru mótframbjóðendur Ólafs Ragnars Grímssonar í forsetakosningunum árið 1996?

Endilega spreytið ykkur á þessum laufléttu spurningum og leggið inn svör í athugasemdum.

Rétt svör verða birt fimmtudaginn 29.mars nema auðvitað einhver nái þessu fyrir þann tíma.


Fótboltablóðflokkur

Frá því ég man eftir mér hefur fótbolti verið órjúfanlegur hluti lífs
míns. Í ófá ár hef ég stundað hann, enn fleiri horft á hann og álíka
mikið hef ég talað um hann. Einkennilegt hvað íþrótt sem gengur út á að
koma leðurtuðru yfir ákveðna línu getur gripið mann heljartaki. Sem
líkamsrækt er hún meiriháttar, sem sjónvarpsefni enn betri og
vandræðalegum augnarblikum getur maður alltaf bjargað með því að tala
um fótbolta. Út frá þessu mætti segja að fótboltablóð renni í æðum
mínum. Ég set hins vegar spurningarmerki við blóðflokkinn. Ég er borinn
og barnfæddur íslendingur. Amma mín var reyndar þýsk þannig að
blóðflokkurinn ætti að vera bland af þessum tveimur þjóðum. En svo er
nú aldeilis ekki. Ég er svo uppfullur af ensku fótboltablóði að það nær
ekki nokkurri átt. Ég hef, í gengum árin, verið mikill Arsenal-maður og
er að vísu enn. En þegar kemur að leikjum enskra liða gegn liðum frá
öðrum löndum þá held ég alltaf með enskum liðum, sama hvað þau heita.
Reyndar eru fáir enskir leikmenn eftir liðum ensku úrvalsdeildarinnar
en það hefur ekki haft áhrif á mig. Svo þegar enska landsliðið keppir
sit ég sem límdur við sjónvarpsskjáinn, jafnvel þótt sárafáir
Arsenalmenn hafi verið í því í gengnum árin. Slíkar taugar ber ég til
enska liðsins að gangi því illa er dagurinn ónýtur. Þegar þeir duttu úr
HM í Þýskalandi hætti ég að fylgjast með keppninni. Ég hef ekki farið á
marga leiki í ensku úrvalsdeildinni, ekki nema tvo, svo ég skil
eiginlega ekki hvaða þetta enska fótboltablóð komst í æðar mínar. 
Ég ber talsvert meiri tilfinningar til ensku knattspyrnunnar en þeirrar
íslensku og ég get varla minnst á landslið þjóðanna í sömu vikunni.
Hver gæti verið orsökin? Hvað er eiginlega málið? Getur einhver útskýrt
þetta?

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband