Fótboltablóðflokkur

Frá því ég man eftir mér hefur fótbolti verið órjúfanlegur hluti lífs
míns. Í ófá ár hef ég stundað hann, enn fleiri horft á hann og álíka
mikið hef ég talað um hann. Einkennilegt hvað íþrótt sem gengur út á að
koma leðurtuðru yfir ákveðna línu getur gripið mann heljartaki. Sem
líkamsrækt er hún meiriháttar, sem sjónvarpsefni enn betri og
vandræðalegum augnarblikum getur maður alltaf bjargað með því að tala
um fótbolta. Út frá þessu mætti segja að fótboltablóð renni í æðum
mínum. Ég set hins vegar spurningarmerki við blóðflokkinn. Ég er borinn
og barnfæddur íslendingur. Amma mín var reyndar þýsk þannig að
blóðflokkurinn ætti að vera bland af þessum tveimur þjóðum. En svo er
nú aldeilis ekki. Ég er svo uppfullur af ensku fótboltablóði að það nær
ekki nokkurri átt. Ég hef, í gengum árin, verið mikill Arsenal-maður og
er að vísu enn. En þegar kemur að leikjum enskra liða gegn liðum frá
öðrum löndum þá held ég alltaf með enskum liðum, sama hvað þau heita.
Reyndar eru fáir enskir leikmenn eftir liðum ensku úrvalsdeildarinnar
en það hefur ekki haft áhrif á mig. Svo þegar enska landsliðið keppir
sit ég sem límdur við sjónvarpsskjáinn, jafnvel þótt sárafáir
Arsenalmenn hafi verið í því í gengnum árin. Slíkar taugar ber ég til
enska liðsins að gangi því illa er dagurinn ónýtur. Þegar þeir duttu úr
HM í Þýskalandi hætti ég að fylgjast með keppninni. Ég hef ekki farið á
marga leiki í ensku úrvalsdeildinni, ekki nema tvo, svo ég skil
eiginlega ekki hvaða þetta enska fótboltablóð komst í æðar mínar. 
Ég ber talsvert meiri tilfinningar til ensku knattspyrnunnar en þeirrar
íslensku og ég get varla minnst á landslið þjóðanna í sömu vikunni.
Hver gæti verið orsökin? Hvað er eiginlega málið? Getur einhver útskýrt
þetta?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband