Afi minn átti 92 ára afmæli síðastliðinn föstudag. Sá gamli er býsna hress þrátt fyrir háan aldur og lætur engan bilbug á sér finna. Eins og sönnu barnabarni sæmir ákvað ég að kaupa gjöf handa þeim gamla. Ég lenti hins vegar í vandræðum. Hvað á ég svo sem að gefa gæja sem er 92 ára gamall og á nóg af öllu. Eftir að hafa ráðfært mig við valinkunna einstaklinga ákvað ég að kaupa útvarp( eða viðtæki eins og sá gamli kýs að kalla það ). Þegar ég færði honum viðtækið góða varð kauði svona líka ánægður með sonarsoninn að ég átti í mestu vandræðum með að forðast faðmlag. Ég slapp reyndar ekki. En þrátt fyrir að hafa verið ánægður með gjöfina mína gladdi hann fátt meira en það sem vinkona hans gaf honum...baðvigt. Svo glaður varð hann með vigtina að enginn maður slapp úr veislunni fyrr en búið væri að vigta hann. Sá gamli var fyrstur - 84 kg. Ekki mikið á þeim bænum enda oft verið þyngri. Síðan steig hver fjölskyldumeðlimur á vigtina við mikla kátínu þess gamla. Síðastur til að pína greyið gjöfina var svo pabbi gamli...96 KÍLÓ!!! Hrópaði afi upp yfir sig. Þar sem flestir afmælisgestir voru í kringum 80 kílóin vakti þetta nokkra undrun hjá Aldursforseta fjölskyldunnar sem hóf strax að gefa syni sínum heilsusamlega ráð. Auðvitað hlustaði pabbi á þann gamla en þegar hann gerði sig líklegan til að fá sér sneið af afmæliskökunni hrópaði sá gamli:
NEI, nú er nóg komið af kökum vinur...þú verður að halda í við þig annars endar þetta með ósköpum!
Af þessu má draga tvöfaldan lærdóm.
- Það er sama hversu gamlir foreldrar manns eru...þeir hætta aldrei að skipta sér af manni.
- Afi er flottur!
Athugasemdir
Mikið er ég fegin að þú náðir ekki minni þyngd,það voru nefnilega komin nokkur aukakíló þar en allt stendur þetta til bóta hjá okkur hjónakornunum.
Nú eru við komin í aðhald, verðum að hlusta á þann gamla.
mamma
mamma (IP-tala skráð) 20.3.2007 kl. 20:40
Hann nær kannski að bræða eitthvað af lýsinu þegar hann hefst handa við endurbætur á baðinu, ekki spurning um hröð og öguð vinnubrögð þar!!
Hafsteinn (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 13:01
Lúlli! er ekki alltaf sagt að þú og pabbi þinn séðu svo líkir....
Guðrún (IP-tala skráð) 21.3.2007 kl. 22:14
Tja. Ég virðist nú vera líkari afa, a.m.k. hvað þyngd varðar.
Lúðvík Gunnarsson, 22.3.2007 kl. 13:20
Glæsilegur afinn og gaman að allir skulu hafa tekið þátt í vigtuninni.
Helga Atla, Þóra Atla, Sigga Óla og Þórður (IP-tala skráð) 23.3.2007 kl. 22:20
Hahaha, afi er eitursvalur gæji!
Elísabeth (IP-tala skráð) 25.3.2007 kl. 23:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.