Sem ungur sveinn mátti ég oft sitja undir predikunum um mikilvægi vinnunnar. Það voru foreldrar mínir sem áttu til að bregða sér í hempuna og messa. Eins og góðum syni sæmir sat ég undir þessu og kinkaði kolli, enda dreg ég ekkert úr gildi vinnu. Ég seldi Skagablaðið, bar út Moggann og DV lengi vel, vann í bakaríinu hjá brósa og svona mætti lengi telja. Á ölllum þessum stöðum lenti ég í skemmtilegum atvikum sem aldrei gleymast og myndi það sennilega æra óstöðugan að telja þau öll upp hér og nú. Á Hróa Hetti lenti ég hins vegar í atviki sem fær mig alltaf til að brosa. Á einni vaktinni var það mitt hlutverk að svara í símann og taka við pöntunum. Framan af kvöldi gekk þetta vel og pantanirnar hlóðust upp. Þá kom að skemmtilegu símtali. Inn hringdi eldri maður sem greinilega var ekki vanur að panta sér pizzu. Hann fór með mig marga hringi og aftur til baka án þess að komast að niðurstöðu. Eftir dúk og disk náði ég þó að selja honum eina af fjölmörgum hugmyndum sem ég hafði komið með á meðan símtalinu stóð. Vorum við félagarnir orðnir nokkuð sáttir þegar ég spyr eins og kjáni hvað hann viljir að pizzan sé skorin í margar sneiðar og segi honum að venjan sé að skera hana í átta sneiðar. Þá segir okkar maður:
"Æ, góði skerðu hana bara í 6 sneiðar, ég held ég hafi ekki lyst á 8."
Flokkur: Bloggar | 17.3.2007 | 17:16 (breytt 18.3.2007 kl. 21:27) | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.